Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 347. máls.
140. löggjafarþing 2011–2012.
Þingskjal 510  —  347. mál.

2. umræða.


Nefndarálit



um frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 47/2003, um eftirlit með skipum
(hækkun skipaeftirlitsgjalds).

Frá meiri hluta umhverfis- og samgöngunefndar.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Friðfinn Skaftason frá innanríkisráðuneytinu.
    Frumvarpið felur í sér hækkun skipagjalds um 75% í samræmi við hækkanir á vísitölu neysluverðs frá nóvember 2002 til október 2011, auk verðlagsforsenda frumvarps til fjárlaga fyrir árið 2012. Gjaldtakan leggst jafnt á alla skipaeigendur sem eiga skráð skip hér á landi og er miðað við skipastærð.
    Meiri hlutinn áréttar mikilvægi þess að gjaldskrár séu uppfærðar reglulega í samræmi við verðlagsþróun svo að ekki þurfi að koma til eins mikillar hækkunar eins og hér er lagt til. Meiri hlutinn vill einnig gera athugasemd við málsmeðferð frumvarpsins. Hinn 6. desember sl. var frumvarp til fjárlaga 2012 samþykkt sem lög á Alþingi en þar er gert ráð fyrir þessum auknu tekjum til handa ríkissjóði. Meiri hlutinn bendir á að hækkanir á gjaldtöku eins og frumvarpið felur í sér eiga að fá faglega umfjöllun hjá þeirri nefnd sem málinu er vísað til áður en það er samþykkt í fjárlögum næsta árs.
    Þór Saari áheyrnarfulltrúi er ekki samþykkur áliti þessu.
    Meiri hlutinn leggur til að frumvarpið verði samþykkt óbreytt.

Alþingi, 12. desember 2011.



Guðfríður Lilja Grétarsdóttir,


form., frsm.


Ólína Þorvarðardóttir.


Þuríður Backman.



Mörður Árnason.


Róbert Marshall.


Atli Gíslason.